top of page

allt sem þú vildir vita um Njálu ... og meira til!

Lestu Njálu, sögu Njáls á Bergþórshvoli, fjölskyldu hans og samtíðarmanna

Njálubækur, teiknimyndasögur og útgáfur sem henta ungmennum

Erlendar útgáfur Njálu, þýðingar og aðrar bækur þar sem Njáls saga er viðfangsefnið

1. kafli

Mörður hét maður er kallaður var gígja. Hann var sonur Sighvats hins rauða. Hann bjó á Velli á Rangárvöllum. Hann var ríkur höfðingi og málafylgjumaður mikill og svo mikill lögmaður að engir þóttu löglegir dómar dæmdir nema hann væri við. Hann átti dóttur eina er Unnur hét. Hún var væn kona og kurteis og vel að sér og þótti sá bestur kostur á Rangárvöllum.

Nú víkur sögunni vestur til Breiðafjarðardala. Maður er nefndur Höskuldur. Hann var Dala-Kollsson. Móðir hans hét Þorgerður og var dóttir Þorsteins hins rauða, Ólafssonar hins hvíta, Ingjaldssonar, Helgasonar. Móðir Ingjalds var Þóra, dóttir Sigurðar orms í auga, Ragnarssonar loðbrókar. Unnur hin djúpúðga var móðir Þorsteins rauðs, dóttir Ketils flatnefs, Bjarnarsonar bunu. Höskuldur bjó á Höskuldsstöðum í Laxárdal.

Hrútur hét bróðir hans. Hann bjó á Hrútsstöðum. Hann var sammæður við Höskuld. Faðir hans var Herjólfur. Hrútur var vænn maður, mikill og sterkur, vígur vel og hógvær í skapi, manna vitrastur, hagráður við vini sína en tillagagóður hinna stærri mála.

Það var einu hverju sinni að Höskuldur hafði vinaboð og þar var Hrútur bróðir hans og sat hið næsta honum. Höskuldur átti sér dóttur er Hallgerður hét. Hún lék sér á gólfi við aðrar meyjar. Hún var fríð sýnum og mikil vexti og hárið svo fagurt sem silki og svo mikið að það tók ofan á belti.

Höskuldur kallar á hana: "Far þú hingað til mín," sagði hann.

Hún gekk þegar til hans. Hann tók undir hökuna og kyssti hana. Síðan gekk hún í braut.

Þá ræddi Höskuldur til Hrúts: "Hversu líst þér á mey þessa, þykir þér eigi fögur vera?"

Hrútur þagði við. Höskuldur talaði til annað sinn.

Hrútur svaraði þá. "Ærið fögur er mær sjá og munu margir þess gjalda. En hitt veit eg eigi hvaðan þjófsaugu eru komin í ættir vorar."

Þá reiddist Höskuldur og var fátt um með þeim bræðrum nokkura hríð.

Bræður Hallgerðar voru þeir Þorleikur, faðir Bolla, og Ólafur, faðir Kjartans, og Bárður.

2. kafli

Það var einu hverju sinni að þeir bræður riðu til alþingis, Höskuldur og Hrútur. Þar var fjölmenni mikið.

Þá ræddi Höskuldur við Hrút: "Það vildi eg bróðir að þú bættir ráð þitt og bæðir þér konu."

Hrútur svarar: "Lengi hefir mér það í hug verið og hefir mér þó tvennt um sýnst. En nú vil eg gera að þínu skapi eða hvar skulum við á leita?"

Höskuldur svaraði: "Hér eru nú höfðingjar margir á þingi og er gott um að velja en þó hefi eg í einum stað á stofnað fyrir þína hönd. Kona heitir Unnur og er dóttir Marðar gígju, hins vitrasta manns, og er hann hér á þingi og svo dóttir hans og mátt þú nú sjá hana ef þú vilt."

Og annan dag eftir er menn gengu til lögréttu sáu þeir konur úti hjá Rangæingabúð, vel búnar.

Þá mælti Höskuldur við Hrút: "Þar er hún nú Unnur er eg sagði þér frá eða hversu líst þér á hana?"

"Vel," sagði hann, "en eigi veit eg hvort við eigum heill saman."

Síðan ganga þeir til lögréttu. Mörður gígja mælti lögskil að vanda sínum og gekk heim til búðar sinnar. Höskuldur stóð upp og Hrútur og gengu til búðar Marðar og inn í búðina. Mörður sat í innanverðri búðinni. Þeir kvöddu hann. Hann stóð upp í mót þeim og tók í hönd Höskuldi og settist hann niður hjá honum en Hrútur sat hið næsta Höskuldi.

Síðan töluðu þeir margt og komu þar niður ræður Höskulds að "eg mæli til kaupa við þig. Vill Hrútur gerast mágur þinn og kaupa dóttur þína og skal eg eigi mitt til spara."

Mörður svaraði: "Veit eg að þú ert höfðingi mikill en bróðir þinn er mér ókunnigur."

Höskuldur mælti: "Framar er hann en eg."

Mörður mælti: "Mikið munt þú þurfa fram að leggja með honum því að hún á allan arf eftir mig."

"Eigi þarf og lengi að bíða hvað eg skal á kveða," sagði Höskuldur, "hann skal hafa Kambsnes og Hrútsstaði og upp til Þrándargils. Hann á og kaupskip í siglingum."

Hrútur talaði þá til Marðar: "Hugsa svo um bóndi að bróðir minn mun mér mjög hafa fram haldið fyrir ástar sakir. En ef þér viljið gera málið að álitum þá vil eg að þér gerið kostinn."

Mörður svaraði: "Hugsað hefi eg kostinn. Hún skal hafa sex tigu hundraða og skal aukast þriðjungi í þínum garði en ef þið eigið erfingja þá skal vera helmingarfélag með ykkur."

Hrútur mælti: "Þenna kost vil eg og höfum nú votta við."

Síðan stóðu þeir upp og tókust í hendur og fastnaði Mörður Hrúti dóttur sína Unni og skyldi boð vera hálfum mánuði eftir mitt sumar að Marðar.

Nú ríða þeir heim af þingi hvorirtveggju og ríða þeir vestur hjá Hallbjarnarvörðum. Þá reið í mót þeim Þjóstólfur, son Bjarnar gullbera úr Reykjardal, og sagði þeim skipkomu í Hvítá og var þar kominn út Össur föðurbróðir Hrúts og vildi að Hrútur kæmi til fundar við hann sem fyrst. En er Hrútur spurði þetta þá bað hann Höskuld fara til skips með sér. Höskuldur fór og þeir báðir.

En er þeir komu til skips fagnar Hrútur Össuri frænda sínum vel og blíðlega. Össur bauð þeim inn í búð að drekka. Síðan var tekið af hestum þeirra og gengu þeir inn og drukku.

Hrútur mælti til Össurar: "Nú skalt þú ríða vestur með mér frændi og vera með mér í vetur."

"Eigi hendir svo," sagði hann, "því að eg segi þér lát Eyvindar bróður þíns en hann leiddi þig til arfs á Gulaþingi og munu nú taka óvinir þínir ef þú kemur eigi til."

"Hvað er nú til ráðs bróðir?" sagði Hrútur, "þykir mér nú vandast málið er eg hefi áður ráðið brúðlaup mitt."

Höskuldur mælti: "Þú skalt ríða suður til fundar við Mörð og bið hann að þið skipið máldaga annan og sitji dóttir hans þrjá vetur í festum. En eg mun ríða heim og flytja vöru þína til skips."

Hrútur mælti: "Nú vil eg að þú takir mjöl og við og slíkt annað sem þér líkar af varningi."

Hrútur lét taka hesta sína og reið hann suður en Höskuldur reið heim vestur.

Hrútur kom austur á Rangárvöllu til Marðar og hafði þar góðar viðtökur. Hrútur sagði Merði allt efni sitt og bað hann ráð á leggja.

Mörður mælti og spurði hversu mikið fé það væri.

Hrútur sagði vera tvö hundruð marka ef hann fengi allt.

Mörður mælti: "Mikið er það í móti erfðinni minni og skalt þú víst fara ef þú vilt."

Síðan breyttu þeir máldaganum og skyldi Unnur sitja þrjá vetur í festum.

Nú ríður Hrútur til skips og er við skip um sumarið þar til er búið var. Höskuldur færði fé allt til skips það sem Hrútur átti. Hrútur fékk Höskuldi í hendur fjárvarðveislu sína vestur þar meðan hann væri utan. Reið Höskuldur heim til bús síns.

Litlu síðar gaf þeim byr og sigla þeir í haf. Þeir voru úti þrjár vikur og komu að við Hernar á Hörðalandi og sigldu síðan austur til Víkur.

3. kafli

Haraldur gráfeldur réð fyrir Noregi. Hann var sonur Eiríks blóðöxar Haraldssonar hins hárfagra. Gunnhildur hét móðir hans og var dóttir Össurar tota. Þau höfðu aðsetur austur í Konungahellu.

Nú spurðist skipkoman austur þangað til Víkurinnar. Og þegar er þetta fréttir Gunnhildur spurði hún eftir hvað íslenskra manna væri á skipi. Henni var sagt að Hrútur hét maður og var bróðursonur Össurar.

Gunnhildur mælti: "Eg veit gjörla. Hann mun heimta erfð sína en sá maður hefir að varðveita er Sóti heitir."

Síðan kallar hún á einn herbergissvein sinn er Ögmundur hét: "Eg vil senda þig norður í Víkina á fund Össurar og Hrúts og seg að eg býð þeim báðum til mín í vetur og eg vil vera vinur þeirra. Og ef Hrútur fer mínum ráðum fram þá skal eg sjá um fémál hans og um það annað er hann tekur að henda. Eg skal og koma honum fram við konunginn."

Síðan fór Ögmundur og kom á fund þeirra. En þegar er þeir vissu að hann var sveinn Gunnhildar tóku þeir við honum sem best. Hann sagði þeim erindi sín af hljóði.

Síðan töluðu þeir ráðagerðir sínar frændur leynilega og ræddi Össur við Hrút: "Svo líst mér frændi sem nú munum við hafa gert ráð okkað því að eg kann skapi Gunnhildar. Jafnskjótt sem við viljum eigi fara til hennar mun hún reka okkur úr landi en taka fé okkað allt með ráni. En ef við förum til hennar þá mun hún gera okkur sæmd slíka sem hún hefir heitið."

Ögmundur fór heim. Og er hann fann Gunnhildi sagði hann henni erindislok sín og það að þeir mundu koma.

Gunnhildur mælti: "Slíks var von því að Hrútur er vitur maður og vel að sér. En nú haf þú njósn af nær er þeir koma til bæjarins og seg mér."

Þeir Hrútur fóru austur til Konungahellu. En er þeir komu þar gengu í mót þeim frændur og vinir og fögnuðu þeim vel. Þeir spurðu hvort konungur var í bænum. Þeim var sagt að hann var þar. Síðan mættu þeir Ögmundi.

Hann sagði þeim kveðju Gunnhildar og það með að hún mundi eigi bjóða þeim fyrr en þeir hefðu fundið konung fyrir orðs sakir: "að svo þyki sem eg grípi gulli á við þá. En eg mun þó til leggja slíkt er mér sýnist og veri Hrútur djarfmæltur við konung og biðji hann hirðvistar. Eru hér og klæði er drottningin sendir þér og skalt þú í þeim ganga fyrir konunginn."

Síðan fór Ögmundur aftur.

Annan dag eftir mælti Hrútur við Össur: "Göngum við nú fyrir konung."

"Það má vel," sagði Össur.

Þeir gengu tólf saman og voru þeir allir frændur þeirra og vinir. Þeir komu í höllina er konungur sat yfir drykkju. Gekk Hrútur fyrstur og kvaddi konunginn. Konungur hugði vandlega að manninum er vel var búinn og spurði hann að nafni. Hann nefnir sig.

"Ert þú íslenskur maður?" sagði konungur.

Hann sagði að svo var.

"Hvað hvatti þig hingað á vorn fund?"

"Að sjá tign yðra herra og það annað að eg á erfðamál mikið hér í landi og mun eg yðvar verða við að njóta að eg fái rétt af."

Konungur mælti: "Hverjum manni hefi eg heitið lögum hér í landi eða hver eru fleiri erindi þín á vorn fund?"

"Herra," sagði Hrútur, "eg vil biðja yður hirðvistar og gerast yðvar maður."

Konungur þagnar við.

Gunnhildur mælti: "Svo líst mér sem sjá maður bjóði yður hina mestu sæmd því að mér líst svo ef slíkir væru margir innan hirðar sem þá væri vel skipað."

"Er hann vitur maður?" sagði konungur.

"Bæði er hann vitur og framgjarn," segir hún.

"Svo þykir mér sem móðir mín vilji að þú fáir nafnbót slíka sem þú mælir til. En fyrir tignar sakir vorrar og landssiðar þá kom þú til vor á hálfs mánaðar fresti. Skalt þú þá gerast hirðmaður minn en móðir mín haldi þér kost þar til og kom síðan á minn fund."

Gunnhildur mælti við Ögmund: "Fylg þeim til húsa minna og ger þeim þar góða veislu."

Ögmundur gekk út og þeir með honum og fylgdi hann þeim í eina steinhöll. Þar var tjaldað hinum fegursta borða. Þar var og hásæti Gunnhildar.

Þá mælti Ögmundur: "Nú mun það sannast er eg sagði þér frá Gunnhildi. Hér er hásæti hennar og skalt þú í setjast og halda mátt þú þessu sæti þó að hún komi sjálf til."

Síðan veitti hann þeim veislu. Þeir höfðu skamma hríð setið áður þar kom Gunnhildur. Hrútur vildi upp spretta og fagna henni.

"Sit þú," segir hún, "og skalt þú jafnan þessu sæti halda þá er þú ert í boði mínu."

Síðan settist hún hjá Hrúti og drukku þau. Og um kveldið mælti hún: "Þú skalt sofa í lofti hjá mér í nótt og við tvö saman."

"Þér skuluð ráða," sagði hann.

Síðan gengu þau til svefns og læsti hún þegar loftinu innan og sváfu þau þar um nóttina. Um morguninn eftir fóru þau til drykkju. Og allan þann hálfan mánuð lágu þau í loftinu tvö ein.

Þá mælti Gunnhildur við þá menn er þar voru: "Þér skuluð engu fyrir týna nema lífinu ef þér segið nokkurum frá um hagi vora."

Hrútur gaf henni hundrað álna hafnarvoðar og tólf vararfeldi. Gunnhildur þakkaði honum gjöfina. Hrútur gekk í braut og minntist við hana áður og þakkaði henni. Hún bað hann vel fara.

Um daginn eftir gekk Hrútur fyrir konung við þrjá tigu manna og kvaddi konung.

Konungur mælti: "Nú munt þú vilja að eg efni við þig Hrútur það sem eg hét þér."

Gerði konungur þá Hrút hirðmann sinn.

Hrútur mælti þá: "Hvar vísið þér mér til sætis?"

"Móðir mín skal því ráða," sagði konungur.

Síðan fékk hún honum hinn sæmilegasta sess og var hann með konungi um veturinn vel metinn.

4. kafli

Um vorið spurði hann til Sóta að hann var farinn suður til Danmerkur með erfðina. Þá gekk Hrútur á fund Gunnhildar og segir henni frá ferðum Sóta.

Gunnhildur mælti: "Eg mun fá þér tvö langskip skipuð mönnum og þar með hinn hraustasta mann, Úlf óþveginn, gestahöfðingja vorn. En þó gakk þú að finna konung áður þú farir."

Hrútur gerði svo. Og er hann kom fyrir konung þá segir hann konungi um ferð Sóta og það með að hann ætlar eftir honum að halda.

Konungur mælti: "Hvern styrk hefir móðir mín til lagið með þér?"

Hrútur svarar: "Langskip tvö og fyrir liðinu Úlf óþveginn."

Konungur mælti: "Vel er þar til fengið. Nú vil eg fá þér önnur tvö langskip og munt þú þó þurfa þessa liðs alls."

Síðan fylgdi hann Hrúti til skips og mælti: "Farist þér nú vel."

Síðan sigldi Hrútur liði sínu suður.

5. kafli

Atli hét maður. Hann var sonur Arnviðar jarls úr Gautlandi hinu eystra. Hann var hermaður mikill og lá úti austur í Leginum. Hann hafði átta skip. Faðir hans hafði haldið sköttum fyrir Hákoni Aðalsteinsfóstra og stukku þeir feðgar til Gautlands úr Jamtalandi. Atli hélt liðinu úr Leginum út um Stokkssund og svo suður til Danmerkur og liggur úti í Eyrasundi. Hann var og útlagi bæði Danakonungs og Svíakonungs af ránum og manndrápum er hann hafði gert í hvorutveggja ríkinu.

Hrútur hélt suður til Eyrasunds. Og er hann kom í sundið sér hann fjölda skipa í sundinu.

Þá mælti Úlfur: "Hvað skal nú til ráða taka Íslendingur?"

"Halda fram ferðinni," Segir Hrútur, "því að ekki dugir ófreistað. Skal skip okkar Össurar fara fyrst en þú skalt leggja fram sem þér líkar."

"Sjaldan hefi eg haft aðra að skildi fyrir mér," segir Úlfur.

Leggur hann fram skeiðina jafnfram skipi Hrúts og halda svo fram í sundið.

Nú sjá þeir er í sundinu eru að skip fara að þeim og segja Atla til.

Hann svaraði: "Þá gefur vel til fjár að vinna og reki menn af sér tjöldin og búist við sem hvatlegast á hverju skipi. Skip mitt skal vera í miðjum flotanum."

Síðan greiddu þeir róðurinn á skipum Hrúts. Og þegar er hvorir heyrðu mál annarra stóð Atli upp og mælti: "Þér farið óvarlega. Sáuð þér eigi að herskip voru í sundinu eða hvert er nafn höfðingja yðvars?"

"Hrútur heiti eg," segir hann.

"Hvers maður ert þú?" segir Atli.

"Hirðmaður Haralds konungs gráfeldar," segir Hrútur.

Atli mælti: "Lengi höfum við feðgar eigi kærir verið Noregskonungum yðrum."

"Ykkur ógæfa er það," segir Hrútur.

"Svo hefir borið saman fund okkarn," segir Atli, "að þú skalt eigi kunna frá tíðindum að segja" og þreif upp spjót og skaut á skip Hrúts og hafði sá bana er fyrir varð.

Síðan tókst orusta með þeim og sóttist þeim seint skip þeirra Hrúts. Úlfur gekk vel fram og gerði ýmist að hann skaut eða lagði. Ásólfur hét stafnbúi Atla. Hann hljóp upp á skip Hrúts og varð fjögurra manna bani áður Hrútur varð var við. Snýr hann þá í mót honum. En er þeir finnast þá leggur Ásólfur í skjöld Hrúts og í gegnum en Hrútur hjó til Ásólfs og varð það banahögg.

Þetta sá Úlfur óþveginn og mælti: "Bæði er nú Hrútur að þú höggur stórt enda átt þú mikið að launa Gunnhildi."

"Þess varir mig," segir Hrútur, "að þú mælir feigum munni."

Nú sér Atli beran vopnastað á Úlfi og skaut spjóti í gegnum hann. Síðan varð hin strangasta orusta. Atli hleypur upp á skip að Hrúti og ryðst um fast og nú snýr í mót honum Össur og lagði til hans og féll sjálfur á bak aftur því að annar maður lagði til hans. Hrútur sneri nú í mót Atla. Atli hjó þegar í skjöld Hrúts og klauf allan niður. Þá fékk Atli steinshögg á höndina og féll niður sverðið. Hrútur tók sverðið og hjó undan Atla fótinn. Síðan veitti hann honum banasár. Þar tóku þeir fé mikið og höfðu með sér tvö skip, þau er best voru, og dvöldust þar litla hríð síðan.

Þeir Sóti fórust hjá. Sigldi hann aftur til Noregs. Kom hann við Limgarðssíðu og gekk þar á land. Þar mætti hann Ögmundi sveini Gunnhildar.

Ögmundur kenndi Sóta þegar og spyr hann: "Hve lengi ætlar þú hér að vera?"

"Þrjár nætur," segir Sóti.

"Hvert ætlar þú þá?" sagði Ögmundur.

"Vestur til Englands," segir Sóti, "og koma aldrei til Noregs meðan ríki Gunnhildar er."

Ögmundur gekk þá í braut og fer á fund Gunnhildar því að hún var þaðan skammt á veislu og Guðröður sonur hennar. Ögmundur sagði Gunnhildi frá ætlan Sóta. En hún bað þegar Guðröð son sinn fara og taka Sóta af lífi.

Guðröður fór þegar og kom á óvart Sóta og lét leiða hann á land upp og festa þar upp en tók fé allt og færði móður sinni. Hún fékk til menn að færa allt féið á land upp og austur til Konungahellu og fór sjálf þangað.

Hrútur hélt aftur um haustið og hafði fengið fjár mikils og fór þegar á fund konungs og hafði af honum góðar viðtökur. Hann bauð þeim að hafa slíkt af fénu sem þeir vildu en konungurinn tók af þriðjunginn. Gunnhildur segir Hrúti að hún hafði tekið erfðina en látið drepa Sóta. Hann þakkaði henni og gaf henni allt hálft við sig.

6. kafli

Hrútur var með konungi um veturinn í góðu yfirlæti. En er voraðist gerðist Hrútur hljóður mjög.

Gunnhildur fann það og talaði til hans er þau voru tvö saman: "Ert þú hugsjúkur, Hrútur?" sagði hún.

"Það er mælt," segir Hrútur, "að illt er þeim er á ólandi er alinn."

"Vilt þú til Íslands?" segir hún.

"Það vil eg," sagði hann.

"Átt þú konu nokkura út þar?" segir hún.

"Eigi er það," sagði hann.

"Það hefi eg þó fyrir satt," segir hún.

Síðan hættu þau talinu.

Hrútur gekk fyrir konung og kvaddi hann.

Konungur mælti: "Hvað vilt þú nú Hrútur?"

"Eg vil beiðast herra að þér gefið mér orlof til Íslands."

"Mun þar þinn sómi meiri en hér?" segir konungur.

"Eigi mun það vera," sagði Hrútur, "en það verður hver að vinna er ætlað er."

Gunnhildur mælti: "Við ramman mun reip að draga og gefið honum gott orlof að hann fari sem honum líkar best."

Þá var ært illa í landi en þó fékk konungurinn honum mjöl sem hann vildi hafa.

Nú býst hann út til Íslands og Össur með honum. Og er þeir voru búnir þá gekk Hrútur að finna konunginn og Gunnhildi.

Gunnhildur leiddi hann á eintal og mælti til hans: "Hér er gullhringur er eg vil gefa þér" og spennti á hönd honum.

"Marga gjöf góða hef eg af þér þegið," segir Hrútur.

Hún tók höndum um háls honum og kyssti hann og mælti: "Ef eg á svo mikið vald á þér sem eg ætla þá legg eg það á við þig að þú megir engri munúð fram koma við þá konu er þú ætlar þér á Íslandi að eiga en fremja skalt þú mega við aðrar konur vilja þinn. Og hefir nú hvortgi okkað vel. Þú trúðir mér eigi til málsins."

Hrútur hló að og gekk í braut.

Síðan fór hann til fundar við konunginn og þakkaði honum hversu höfðinglega hann hafði alla hluti til hans gert. Konungurinn bað hann vel fara og kvað Hrút vera hinn röskvasta mann og vel kunna að vera með tignum mönnum.

Hrútur gekk síðan til skips og sigldi í haf. Þeim gaf vel byri og tóku Borgarfjörð. En þegar er skip var landfast reið Hrútur vestur heim en Össur lét ryðja skipið. Hrútur reið á Höskuldsstaði og tók bróðir hans vel við honum og sagði Hrútur honum allt um ferðir sínar. Síðan sendi hann mann austur á Rangárvöllu til Marðar gígju að búast við boði. En þeir bræður riðu síðan til skips og sagði Höskuldur Hrúti fjárhagi hans og hafði mikið á aflast síðan Hrútur fór í braut.

Hrútur mælti: "Minni mun umbun verða bróðir en skyldi en fá vil eg þér mjöl svo sem þú þarft í bú þitt í vetur."

Síðan réðu þeir skipinu til hlunns og bjuggu um en færðu varning allan vestur í Dala.

Hrútur var heima á Hrútsstöðum til sex vikna.

Þá buggust þeir bræður og Össur með þeim að ríða austur til brúðlaups Hrúts og riðu við sex tigu manna. Þeir riðu þar til er þeir koma austur á Rangárvöllu. Þar var fjöldi fyrirboðsmanna. Skipuðust menn þar í sæti en konur skipuðu pall og var brúðurin heldur döpur. Drekka þeir veisluna og fer hún vel fram. Mörður greiddi út heimanfylgju dóttur sinnar og reið hún vestur með Hrúti. Þau riðu þar til er þau komu heim. Hrútur fékk henni öll ráð í hendur fyrir innan stokk og líkaði það öllum vel. En fátt var um með þeim Hrúti um samfarar og fer svo fram allt til vors.

Og þá er voraði átti Hrútur för í Vestfjörðu að heimta fyrir varning sinn. En áður hann færi heiman talaði Unnur við hann: "Hvort ætlar þú aftur að koma áður menn ríða til þings?"

"Hvað er að því?" segir Hrútur.

"Eg vil ríða til þings," segir hún, "og finna föður minn."

"Svo skal þá vera," sagði hann, "og mun eg ríða til þings með þér."

"Vel er það og," segir hún.

Síðan fór hann heiman og vestur í fjörðu og byggði allt féið og fór þegar vestan.

Og er hann kom heim bjó hann sig þegar til þings og lét ríða með sér alla nábúa sína. Höskuldur reið og, bróðir hans.

Hrútur mælti við konu sína: "Ef þér er jafnmikill hugur á að fara til þings sem þú lést þá bú þú þig og ríð til þings með mér."

Hún bjó sig skjótt og síðan ríða þau uns þau koma til þings.

Unnur gekk til búðar föður síns. Hann fagnaði henni vel en henni var skapþungt nokkuð.

Og er hann fann það mælti hann til hennar: "Séð hefi eg þig með betra bragði eða hvað býr þér í skapi?"

Hún tók að gráta og svaraði engu.

Þá mælti hann við hana: "Til hvers reiðst þú til alþingis ef þú vilt eigi svara mér eða segja mér trúnað þinn eða þykir þér eigi gott vestur þar?"

Hún svaraði: "Gefa mundi eg til alla eigu mína að eg hefði þar aldrei komið."

Mörður mælti: "Þessa má eg skjótt vís verða."

Þá sendi hann mann eftir þeim Hrúti og Höskuldi. Þeir fóru þegar. Og er þeir komu á fund Marðar stóð hann upp í mót þeim og fagnaði þeim vel og bað þá sitja. Töluðu þeir lengi og fór tal þeirra vel.

Þá mælti Mörður til Hrúts: "Hví þykir dóttur minni svo illt vestur þar?"

Hrútur mælti: "Segi hún til ef hún hefir sakagiftir nokkurar við mig."

En þær urðu engar upp bornar við Hrút. Þá lét Hrútur eftir spyrja nábúa sína og heimamenn hversu hann gerði til hennar. Þeir báru honum gott vitni og sögðu hana ráða öllu því er hún vildi.

Mörður mælti: "Heim skalt þú fara og una vel við ráð þitt því að honum ganga öll vitni betur en þér."

Síðan reið Hrútur heim af þingi og kona hans með honum og var nú vel með þeim um sumarið. En þá er vetraði þá dró til vanda um samfarar þeirra og var þess verr er meir leið á vorið.

Hrútur átti enn ferð vestur í fjörðu að fjárreiðum sínum og lýsti yfir því að hann mundi eigi til alþingis ríða. Unnur talaði fátt um. Hrútur fór þá er hann var til þess búinn.

7. kafli

Nú líður til þings framan. Unnur talaði við Sigmund Össurarson og spurði ef hann vildi ríða til þings með henni. Hann kveðst eigi ríða mundu ef Hrúti frænda hans þætti verr.

"Því kveð eg þig til," segir hún, "að eg á á þér helst vald allra manna."

Hann svaraði: "Gera mun eg þér kost á þessu. Þú skalt ríða vestur með mér aftur og hafa engi undirmál við Hrút eða mig."

Hún hét því. Síðan ríða þau til þings.

Mörður var á þingi, faðir hennar. Hann tók við henni allvel og bað hana vera í búð sinni meðan þingið væri. Hún gerði svo.

Mörður mælti: "Hvað segir þú mér frá Hrúti félaga þínum?"

Hún svarar: "Gott má eg frá honum segja það allt er honum er sjálfrátt."

Mörður varð hljóður við og mælti: "Það býr þér nú í skapi dóttir að þú vilt að engi viti nema eg og munt þú trúa mér best til úrráða um þitt mál."

Þá gengu þau á tal þar er engir menn heyrðu þeirra viðurmæli.

Þá mælti Mörður til dóttur sinnar: "Seg þú mér nú allt það er á meðal ykkar er og lát þér ekki í augu vaxa."

"Svo mun vera verða," segir hún. "Eg vildi segja skilið við Hrút og má eg segja þér hverja sök eg má helst gefa honum. Hann má ekki hjúskaparfar eiga við mig svo að eg megi njóta hans en hann er að allri náttúru sinn annarri sem hinir vöskustu menn."

"Hversu má svo vera?" segir Mörður, "og seg mér enn gerr."

Hún svarar: "Þegar hann kemur við mig þá er hörund hans svo mikið að hann má ekki eftirlæti hafa við mig en þó höfum við bæði breytni til þess á alla vega að við mættum njótast en það verður ekki. En þó áður við skiljum sýnir hann það af sér að hann er í æði sínu rétt sem aðrir menn."

Mörður mælti: "Vel hefir þú nú gert er þú sagðir mér. Mun eg leggja ráð á með þér það er þér mun duga ef þú kannt með að fara og bregðir þú hvergi af. Nú skalt þú heim ríða fyrst af þingi og mun bóndi þinn heim kominn og taka við þér vel. Þú skalt vera við hann blíð og eftirmál og mun honum þykja góð skipan á komin. Þú skalt enga fáleika á þér sýna. En þá er vorar skalt þú kasta á þig sótt og liggja í rekkju. Hrútur mun engum getum vilja um leiða um sóttarfar þitt og ámæla þér í engu, heldur mun hann biðja að allir geymi þín sem best. Síðan mun hann fara í fjörðu vestur og Sigmundur með honum og mun hann flytja allt fé sitt vestan úr fjörðum og vera í brautu lengi sumars. En þá er menn ríða til þings og allir menn eru riðnir úr Dölum, þeir er ríða ætla, þá skalt þú rísa úr rekkju og kveðja menn til ferðar með þér. En þá er þú ert albúin þá skalt þú ganga til hvílu þinnar og þeir menn með þér sem förunautar þínir eru. Þú skalt nefna votta hjá rekkjustokki bónda þíns og segja skilið við hann lagaskilnaði sem þú mátt framast að alþingismáli réttu og allsherjarlögum. Slíka vottnefnu skalt þú hafa fyrir karldyrum. Síðan ríð þú í braut og ríð Laxárdalsheiði og svo til Holtavörðuheiðar því að þín mun eigi leitað til Hrútafjarðar og ríð þar til er þú kemur til mín og mun eg þá sjá fyrir málinu og skalt þú aldrei síðan koma honum í hendur."

Nú ríður hún heim af þingi og var Hrútur heim kominn og fagnaði henni vel. Hún tók vel máli hans og var við hann blíð og eftirmál. Þeirra samfarar voru góðar þau misseri. En er voraði tók hún sótt og lagðist í rekkju. Hrútur fór í fjörðu vestur og bað henni virkta áður.

Nú er kemur að þingi bjó hún ferð sína í braut og fór með öllu svo sem fyrir var sagt og ríður á þing síðan. Héraðsmenn leituðu hennar og fundu hana eigi.

Mörður tók við dóttur sinni vel og spurði hana hversu hún hefði með farið ráðagerð hans.

"Hvergi hefi eg af brugðið," sagði hún.

Hann gekk til Lögbergs og sagði skilið lagaskilnaði með þeim að Lögbergi.

Þetta gerðu menn að nýjum tíðindum.

Unnur fór heim með föður sínum og kom aldrei vestur þar síðan.

8. kafli

Hrútur kom heim og brá mjög í brún er kona hans var í brautu og er þó vel stilltur og var heima öll þau misseri og réðst við engan mann um sitt mál.

Annað sumar eftir reið hann til alþingis og Höskuldur bróðir hans með honum og fjölmenntu mjög. En er hann kom á þing þá spurði hann hvort Mörður gígja væri á þingi. Honum var sagt að hann var þar og ætluðu allir að þeir mundu tala um mál sín en það varð eigi.

Einnhvern dag er menn gengu til Lögbergs nefndi Mörður sér votta og lýsti fésök á hendur Hrúti um fémál dóttur sinnar og taldi níu tigu hundraða fjár. Lýsti hann til gjalda og til útgreiðslu og lét varða þriggja marka útlegð. Hann lýsti í fjórðungsdóm þann er sökin átti í að koma að lögum. Lýsti hann löglýsing og í heyranda hljóði að Lögbergi.

En er hann hafði þetta mælt svaraði Hrútur: "Meir sækir þú þetta mál með fjárágirnd og kapppi er heyrir til dóttur þinnar heldur en með góðvild eða drengskap enda mun eg hér láta nokkuð í mót koma því að þú hefir enn eigi féið í hendi þér það er eg fer með. Mæli eg svo fyrir að þeir séu allir heyrandi vottar er hjá eru að Lögbergi að eg skora þér á hólm. Skal við liggja mundurinn allur og þar legg eg í mót annað fé jafnmikið og eigi sá hvorttveggja féið er af öðrum ber. En ef þú vilt eigi berjast við mig þá skalt þú af allri fjárheimtunni."

Þá þagnaði Mörður og réðst um við vini sína um hólmgönguna.

Honum svaraði Jörundur goði: "Eigi þarft þú við oss ráð að eiga um þetta mál því að þú veist ef þú berst við Hrút að þú munt láta bæði lífið og féið. Er honum vel farið. Hann er mikill af sjálfum sér og manna fræknastur."

Þá kvað Mörður það upp að hann mundi eigi berjast við Hrút. Þá varð óp mikið að Lögbergi og óhljóð og hafði Mörður af hina mestu svívirðu. Síðan ríða menn heim af þingi.

Þeir bræður riðu vestur til Reykjardals, Höskuldur og Hrútur, og gistu að Lundi. Þar bjó Þjóstólfur sonur Bjarnar gullbera. Regn hafði verið mikið um daginn og höfðu menn orðið votir og voru gervir langeldar. Þjóstólfur bóndi sat á meðal þeirra Höskulds og Hrúts. Sveinar tveir léku á gólfinu. Þeir voru veislusveinar Þjóstólfs og lék mær ein hjá þeim. Þeir voru málgir mjög því að þeir voru óvitrir.

Annar þeirra mælti: "Eg skal þér Mörður vera og stefna þér af konunni og finna það til foráttu að þú hafir eigi sorðið hana."

Annar svaraði: "Eg skal þér Hrútur vera. Tel eg þig af allri fjárheimtunni ef þú þorir eigi að berjast við mig."

Þetta mæltu þeir nokkurum sinnum. Þá gerðist hlátur mikill af heimamönnum. Þá reiddist Höskuldur og laust sveininn með sprota, þann er Mörður nefndist, en sprotinn kom í andlitið og sprakk fyrir.

Höskuldur mælti við sveininn: "Verð úti og drag engan spott að oss."

Hrútur mælti: "Gakk hingað til mín."

Sveinninn gerði svo. Hrútur dró fingurgull af hendi sér og gaf honum og mælti: "Far í braut og leita á engan mann síðan."

Sveinninn fór í braut og mælti: "Þínum drengskap skal eg við bregða æ síðan."

Af þessu fékk Hrútur gott orð. Síðan fóru þeir vestur heim og er nú lokið þrætum þeirra Marðar.

9. kafli

Nú er þar til máls að taka að Hallgerður vex upp, dóttir Höskulds, og er kvenna fríðust sýnum og mikil vexti og því var hún langbrók kölluð. Hún var fagurhár og svo mikið hárið að hún mátti hylja sig með. Hún var örlynd og skaphörð.

Þjóstólfur hét fóstri hennar. Hann var suðureyskur að ætt. Hann var styrkur maður og vígur vel og hafði margan mann drepið og bætti engan mann fé. Það var mælt að hann væri engi skapbætir Hallgerði.

Maður er nefndur Þorvaldur. Hann var Ósvífursson. Hann bjó út á Meðalfellsströnd undir Felli. Hann var vel auðigur að fé. Hann átti eyjar þær er heita Bjarneyjar. Þær liggja út á Breiðafirði. Þaðan hafði hann skreið og mjöl. Þorvaldur var vel styrkur maður og kurteis, nokkuð bráður í skaplyndi.

Það var einu hverju sinni að þeir feðgar ræddu með sér hvar Þorvaldur mundi á leita um kvonfang. En það fannst á að honum þótti sér óvíða fullkosta.

Þá mælti Ósvífur: "Vilt þú biðja Hallgerðar langbrókar, dóttur Höskulds?"

"Hennar vil eg biðja," segir hann.

"Það mun ykkur eigi mjög hent," sagði Ósvífur, "hún er kona skapstór en þú ert harðlyndur og óvæginn."

"Þar vil eg þó á leita," segir hann, "og mun mig eigi tjóa að letja."

"Þú átt og mest í hættu," segir Ósvífur.

Síðan fóru þeir bónorðsför og komu á Höskuldsstaði og höfðu þar góðar viðtökur. Þeir ræddu þegar erindi sín fyrir Höskuldi og vöktu bónorðið.

Höskuldur svaraði: "Kunnigt er mér um hag ykkarn en eg vil enga vél að ykkur draga að dóttir mín er hörð í skapi. En um yfirlit hennar og kurteisi megið þið sjálfir sjá."

Þorvaldur svaraði: "Ger þú kostinn því að eg mun skaplyndi hennar eigi láta fyrir kaupi standa."

Síðan tala þeir um kaupið og spurði Höskuldur dóttur sína eigi eftir því að honum var hugur á að gifta hana og urðu þeir á sáttir á allan kaupmála. Síðan rétti Höskuldur fram höndina en Þorvaldur tók í og fastnaði sér Hallgerði og reið heim við svo búið.

10. kafli

Höskuldur sagði Hallgerði kaupið.

Hún mælti: "Nú er eg að raun komin um það er mig hefir lengi grunað að þú mundir eigi unna mér svo mikið sem þú sagðir jafnan er þér þótti eigi þess vert að við mig væri um talað þetta mál enda þykir mér ráð þetta eigi svo mikils háttar sem þér hétuð mér."

Og fannst það á í öllu er hún þóttist vargefin.

Höskuldur mælti: "Ekki legg eg svo mikið við ofmetnað þinn að hann standi fyrir kaupum mínum og skal eg ráða en eigi þú ef okkur skilur á."

"Mikill er metnaður yðvar frænda," segir hún, "og er það eigi undarlegt að eg hafi nokkurn" og gekk á braut síðan.

Hún fann fóstra sinn Þjóstólf og segir honum hvað ætlað var og var henni skapþungt.

Þjóstólfur mælti: "Ger þú þér gott í skapi. Þú munt vera gefin í annað sinn og munt þú þá eftir spurð því að alls staðar mun eg gera að þínu skapi nema þar er faðir þinn er eða Hrútur."

Síðan tala þau ekki um fleira.

Höskuldur bjó veislu og reið að bjóða mönnum til og kom á Hrútsstaði og kallar Hrút út til máls við sig. Hann gekk út og gengu þeir á tal og sagði Höskuldur honum kaupmála allan og bauð honum til boðs "og vildi eg frændi að þér þætti eigi verr þótt eg gerði þér eigi orð áður en kaupmálið réðst."

"Betur þætti mér að eg kæmi hvergi í nánd," segir Hrútur, "því að hvorigu mun í þessu kaupi gifta, honum né henni. En þó mun eg fara til boðs ef þér þykir sæmd í."

"Það þykir mér víst," sagði Höskuldur og reið heim síðan.

Ósvífur og Þorvaldur buðu og mönnum og var eigi boðið færra en hundraði.

Maður er nefndur Svanur. Hann bjó í Bjarnarfirði á bæ þeim er heitir á Svanshóli. Það er norður frá Steingrímsfirði. Svanur var fjölkunnigur mjög. Hann var móðurbróðir Hallgerðar. Hann var ódæll og illur viðureignar. Honum bauð Hallgerður til boðs síns og sendi Þjóstólf eftir honum. Hann fór og voru vináttumál með þeim þegar.

Nú koma menn til veislunnar og sat Hallgerður á palli og var brúðurin allkát og gekk Þjóstólfur jafnan til tals við hana en stundum talar hann við Svan og fannst mönnum mikið um tal þeirra. Veislan fór vel fram. Höskuldur leysti út fé Hallgerðar með hinum besta greiðskap.

Síðan mælti hann til Hrúts: "Skal eg nokkurar gjafar fram leggja?"

Hrútur svaraði: "Kostur mun þér af tómi að eyða fé þínu fyrir Hallgerði og lát hér stað nema."

Lesa áfram á Icelandic Saga Database >

Hrafn hinn rauði

Ber þú sjálfur fjanda þinn.
bottom of page